top of page

Ferðaáætlun Frú Ragnheiðar - Sími: 7887123

 

Mánudaga – Þriðjudaga – Miðvikudaga – Fimmtudaga – Föstudaga

18:00 – 18:30 – Gistiskýlið Lindargötu
Bíl lagt í stæði við gistiskýlið.

18:30 – 19:00 – Eskihlíð
Bíll fyrir neðan Konukot Eskihlíðar megin.
Bankað uppá í Konukoti og á Miklubraut 20

19:00 – 19:30 – Hlemmur
Bíll í stæði við Stórholt og Þverholt

19:30 – 21:00 – Færanleg þjónusta eftir samkomulagi
Þú hringir í okkur, mælir þér mót og við komum og hittum á þig. Keyrt er um allt höfuðborgarsvæðið.

Símanúmer Frú Ragnheiðar 788 7123
Verið velkomin að hringja og líta inn til okkar.

 

 

Frú Ragnheiður - skaðaminnkunarverkefni Rauða Krossins

 

Frú Ragnheiður er verkefni sem byggir á skaðaminnkun og hefur þann tilgang að ná til jaðarhópa samfélagsins, t.d. útigangsfólks, heimilislausra og fíkla, og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd, án fordóma eða kvaða, í þeirra nærumhverfi.

Markmið verkefnisins er að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa, t.d. sýkingum í sárum og útbreiðslu lifrarbólgu C og HIV, með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu um skaðaminnkun. Þannig er hægt með einföldum úrræðum að draga verulega úr skaðsemi lifnaðarhátta og draga úr þörf á dýrari úrræðum seinna meir í heilbrigðiskerfinu.

Þjónustan sem veitt er, er aðhlynning og umbúnaður sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmæling og almenn heilsufarsráðgjöf. Þá geta einstaklingar sem nota sprautubúnað komið með notaðar nálar og sprautur og fengið hreinar nálar og sprautur í staðinn. Einnig afhendum við endurgjaldslaust nálafötur og smærri nálabox til að geyma notuð sprautuáhöld í þar til því er fargað. Við tökum svo við nálafötum og boxum til förgunar en það er framkvæmt af LHS. Starfsemin byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar (Harm Reduction) sem beitt er víða í stórborgum Evrópu og Norður-Ameríku í vinnu með fíklum.

Verkefnið byggir á sjálfboðastarfi fjölbreytts hóps einstaklinga sem standa vaktir tvisvar í mánuði, þrjá tíma í senn. Stærsti einstaki hópur sjálfboðaliða eru hjúkrunarfræðingar og hjúkrunarfræði nemar. Þá hefur verkefnið á að skipa félagsráðgjöfum, vímuefnaráðgjöfum, sálfræðingum og öðrum vel menntuðum og þjálfuðum sjálfboðaliðum.

Verkefnið er rekið af Rauða krossinum í Reykjavík sem leggur því til verkefnastjóra í 30% starf, sjúkrabifreiðina Frú Ragnheiði auk fjármuna til kaupa á sjúkragögnum, sprautum, nálum, boxum og öðrum aðföngum. Áætlaður heildar rekstrarkostnaður fyrir árið 2015 er kr. 8.000.000.-

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur sutt verkefnið um ríflega tvær milljónir á ári frá 2013. Velferðarráðuneytið hefur einnig stutt verkefnið með tveggja milljóna framlagi 2014. Vilji er frá báðum fyrrgreindum aðilum að halda stuðningi við Frú Ragnheiði áfram og efla það árangursríka starf sem þar er unnið.

 

Verkefnið hefur einning notið velvildar fjölmargra aðila í gegnum tíðina í formi afslátta á aðföngum og gjafa í formi tækja , áhalda og umbúða. Þá hefur verkefnið einnig hlotið veglega styrki frá Góða hirðinum / SORPU, Velferðaráði Reykjavíkurborgar, Landlæknisembættinu, Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og Forvarnarsjóði.

Við endurinnréttingu sjúkrabílsins lögðu fjölmargir aðilar verkefninu lið með gjöfum og veglegum afslætt á efni, áhöldum og vinnu. Öllum þeim sem styrkt hafa verkefnið er þakkaður ómetanlegur stuðningur.

Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri Frú Ragheiðar, Svala Jóhannesdóttir - svala@redcross.is

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-googleplus
  • W-Pinterest

© 2023 by THE HOPE CENTER. Proudly created with Wix.com

bottom of page