top of page

Stofnsamþykkt 22. maí 2015

Frú Laufey – félag um skaðaminnkun

Stofnsamþykktir

1.gr.

Félagið heitir Frú Laufey – félag um skaðaminnkun

2. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík

3. gr.

Tilgangur félagsins er að standa vörð um mannréttindi, bæta heilsufar og auka lífsgæði jaðarhópa og með gagnreyndum aðferðum að draga úr ótímabærum dauðsföllum, skaða fyrir einstaklinginn og samfélag og kostnaði af lifnaðarháttum utangarðsfólks.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná:

  • með því að vinna að framgangi hugmyndafræði skaðaminnkunar

  • með eflingu og innleiðingu gagnreyndra skaðaminnkandi úrræða

  • með því að stuðla að aukinni umræðu um skaðaminnkun í samfélaginu

  • með þátttöku í stefnumótandi vinnu með ríki og sveitarfélögum í málefnum jaðarhópa og utangarðsfólks

  • með þýðingu og gerð fræðsluefnis um hugmyndafræði skaðaminnkunar og aðferðum hennar

  • með nánu samstarfi við alþjóðleg skaðaminnkunarsamtök

Í þeim tilgangi að nýta takmarkaðar auðlindir samfélagsins betur og auka gæði þjónustunnar mun félagið:

  • vinna að eflingu faglegs starfs

  • vinna að samræmingu starfsaðferða

  • stuðla að samræðu og samstarfi þvert á stofnanir og þjónustukerfi samfélagsins

  • standa að rekstri skaðaminnkandi verkefna með samningi við ríki, sveitarfélög og aðra

5. gr.

Félagsaðild er opin öllum þeim sem vilja vinna að eflingu hugmynda- og aðferðafræði skaðaminnkunar á Íslandi samkvæmt tilgangi og markmiðum félagsins.

6. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa tillögu- og kosningarétt á aðalfundi og geta boðið sig fram til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Aðalfundur er opinn öllum áhugasömum um málefni skaðaminnkunar og hafa þar málfrelsi.

 

7. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti t.d. með tölvupósti á netfangalista félagsmanna, viðburði á samfélagsmiðlum eða auglýsingu í fjölmiðlum. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

  2. Skýrsla stjórnar lögð fram

  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

  4. Lagabreytingar

  5. Ákvörðun félagsgjalds

  6. Kosning stjórnar

  7. Önnur mál

8.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda og skal stjórn funda að lágmarki fjórum sinnum á ári. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

9.gr.

Taki félagið að sér rekstur skaðaminnkandi verkefna skal stjórn félagsins skipa fagráð sem setur verkefnum félagsins faglega umgjörð og starfsaðferðir. Fagráð fer jafnframt með faglega umsjón og gæðaeftirlit með rekstri verkefna félagsins.

10. gr.

Stjórn getur myndað starfshópa innan félagsins til að vinna meðal annars að fræðslu- og kynningarmálum, sjálfboðaliðamálum, stefnumótun og alþjóðlegu samstarfi.

Félagið skal hið minnsta standa að einum opinberum viðburði á ári um málefni skaðaminnkunar.

11. gr.

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Þátttaka í félaginu er ekki háð greiðslu félagsgjalda.

12. gr.

Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið til að efla gerð og útgáfu skaðaminnkandi fræðsluefnis eða til að styrkja samfélagsverkefni sem sinna skaðaminnkun.

13. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til góðgerðasamtaka sem vinna að velferð utangarðsfólks.

 

Ákvæði til bráðabirgða:

  1. Fyrsta aðalfund félagsins skal halda fyrir 1. maí 2016

  2. Félagsgjöld fyrsta starfsárið skulu vera kr. 5.000,- (fimm þúsund) sem innheimtast með greiðsluseðli í heimabanka félagsmanna.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins

Dagsetning: 22. maí 2015

  • w-facebook
  • Twitter Clean
  • w-googleplus
  • W-Pinterest

© 2023 by THE HOPE CENTER. Proudly created with Wix.com

bottom of page