Contact Us: 123.456.7890
- Félag um skaðaminnkun

Ýmsar greinar í fjölmiðlum
Skaðaminnkandi nálganir
Skaðaminnkandi nálganir teljast sem regnhlífarhugtak yfir breytt svið ýmiskonar nálgana sem hafa ólík markmið, beinast að fjölbreyttum markhópum og eiga sér stað í mismunandi umhverfi. Að neðan er umfjöllun um ólíkar skaðaminnkandi nálganir sem verið er að nýta víðsvegar um heiminn. Eiga þær það sameiginlegt að beinast að skaðlegri áhættuhegðun og ítrekaðar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim og hafa þær sýnt fram á gagnlegan árangur.
Viðhaldsmeðferð
Ópíum viðhaldsmeðferð (Opioid substitution therapy) á sér langa sögu fyrir tíma hugmyndafræði skaðaminnkunar. Hana má rekja allt til upphafs tuttugustu aldar. Þá fóru læknar í Bretlandi að ávísa lyfjum til vímuefnaneytenda í þeim tilfellum sem þeir álitu ráðlegt. Þetta gerðu þeir á viðhaldsgrundvelli til þess að aðstoða vímuefnaneytanda við að setja neysluna í jafnvægi og til að hjálpa honum að lifa gagnlegra lífi. Í dag er viðhaldsmeðferð með svipuðu móti. Viðhaldsmeðferð telst ekki lækning vandans heldur lagfæring og meðhöndlun á krónískri vímuefnafíkn. Fyrirkomulagið er yfirleitt þannig að ávísað er á vímuefnaneytandann lyfi sem telst ekki jafn skaðlegt og það sem fíknin beinist að. Viðhaldsmeðferð er oftast notuð þegar fíkn beinist að ópíumskyldum lyfjum líkt og heróíni og morfíni. Í stað þeirra er yfirleitt ávísað methadón eða buprenorphine, í sumum tilfellum heróini.
Nálaskiptaþjónusta
Nálaskiptaþjónusta (needle exchange programme) felst í því að dreifa ónotuðum sprautubúnaði til sprautunotenda og taka við notuðum. Markmiðið með nálaskiptaþjónustu er að draga úr dreifingu smitsjúkdóma hjá sprautunotendum og stuðla að heilsuvernd. Leitast er við að upplýsa sprautufíklana um hættur í neyslunni og stuðla þannig að því að þeir taki meiri ábyrgð á eigin neyslu og heilsu. Í nálaskiptaþjónustu er því oft einnig veitt fræðsla og lágmarks heilsuvernd líkt og meðhöndlun sýkinga. Sums staðar er einnig boðið uppá lifrarbólgu- og HIV-greiningarpróf ásamt því að veita upplýsingar og tilvísanir í meðferðar- eða félagsþjónustu. Í mörgum tilfellum getur nálaskiptaþjónusta því gegnt hlutverki í að koma sprautunotendum í tengsl við þá velferðarþjónustu sem þeir þarfnast. Tilgangurinn með nálaskiptaþjónustu er einkum að ná til jaðarhópa sem sprauta sig, líkt og heimilislausa og fólk í vændi. Því er nálaskiptaþjónusta oft starfrækt á færanlegan hátt og yfirleitt notast við hjól eða bíla. Einnig er nálaskiptaþjónusta stundum starfrækt af vettvangsteymum sem fara til sprautunotenda og bjóða þeim uppá nálaskipti og aðra aðstoð. Nálaskiptaþjónusta fer einnig oft fram í apótekum og ýmsum úrræðum fyrir vímuefnaneytendur t.d. næturathvörfum. Nálaskiptaþjónustu hefur oft verið skipt í tvo flokka, það eru sérfræði eða lágmarks nálaskiptaþjónusta. Dæmi um það er að í löndum eins og Svíþjóð þar sem fáir staðir bjóða uppá nálaskiptaþjónustu er einungis notast við sérfræði nálaskiptaþjónustu. Þar er þjónustan mun meira en einungis nálaskipti. Í þeim er einnig veitt markviss skaðaminnkandi fræðsla og kennsla, tilvísanir í félags- og meðferðarþjónustu, tekin eru smitsjúkdómapróf og margskonar sérhæfður sprautubúnaður gefinn, eins og skeiðar, sótthreinsiklútar og hreint vatn ásamt því að smokkar eru afhentir.
Neyslurými
Neyslurými (Drug consumption rooms) eru staðir þar sem sprautunotendur geta notað vímuefni í hreinlegu, öruggu og áhættulausu umhverfi undir eftirliti þjálfaðs starfsfólks. Neyslurými eru starfrækt í samstarfi við löggæslu svo neytendur eru ekki handteknir fyrir neyslu ólöglegra vímuefna.
Uppruna flestra neyslurýmanna má rekja til þess að það hafði orðið vart við þörf á þess konar úrræðum þar sem þau eru staðsett. Dæmi um það er Þýskaland. Áður en neyslurými voru leyfð þar árið 1994 voru ýmis þjónustuúrræði fyrir einstaklinga í vímuefnaneyslu farin að veita leyfi fyrir því að vímuefni væru notuð innan þeirra. Neyslurými voru því þróuð útfrá þörf sem úrræði fyrir vímuefnaneytendur voru farin að finna fyrir og til þess að ná margvíslegum ávinningi sem má sjá í eftirfarandi fimm atriðum:
1. Til að ná tengslum við sprautunotenda, bjóða þeim ráðgjöf og þátttöku í jafningjaverkefnum og veita þeim leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun.
2. Til að minnka skaðann af sprautuneyslu með því að bjóða uppá hreinar aðstæður, nálaskipti, mat og læknisþjónustu.
3. Til að draga úr vímuefnaneyslu á almenningsvettvangi.
4. Til að bæta aðgengi sprautunotenda að þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem er þeim nauðsynleg.
5. Til að fagfólk sem þar starfar fái dýpri skilning og meiri upplýsingar um þann lífsstíl og neyslumunstur sem tíðkast hjá sprautunotendur á svæðinu. Þannig getur fagfólkið betur komið auga á þær þarfir sem einkenna hópinn og hvaða forvörnum er hægt að beita.
Lágþröskulda úrræði
Skaðaminnkandi þjónustuúrræði (Low-threshold services) eru úrræði sem starfa samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þessi úrræði eiga það sameiginlegt að í þeim ekki er krafist bindindis, skilningur er á vímuefnaneyslu og boðið er uppá nálaskiptaþjónustu, ráðgjöf, húsaskjól og tengsl við heilbrigðisþjónustu. Markmið þeirra er að ná til einstaklinga sem eru utangarðs og glíma við vandamál tengd neyslu sinni til að veita þeim heilsufarsaðhlynninu, félagslega ráðgjöf ásamt stuðningsþjónustu. Í þessum úrræðum er starfað að mannúð og mannréttindarsjónarmið eru í hávegum höfð. Í mörgum þeirra er veitt fræðsla um öruggari neysluhætti ásamt því að oft er veitt bólusetning og meðferð við smitsjúkdómum.
Skaðaminnkun við áfengisnotkun
Fræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi hefur skaðaminnkandi gildi. Þar sem áfengi er félagslega viðurkennt vímuefni telst sérlega mikilvægt að hefja fræðslu um hættur á hugsanlegum afleiðingum áfengis strax á unglingsárum. Sá hópur er í einna mestri hættu á að stunda óábyrga áfengisneyslu og upplifa því neikvæðar afleiðingar vegna þess. Námskeið sem bjóða uppá fræðslu um ábyrga áfengisnotkun, félagslegar venjur ásamt áhrif áfengis á líkama, sál og félagsleg hlutverk teljast vera árangursrík. Ekki er lögð áhersla á algert bindindi frá áfengi í þessum fræðslum þar sem markmiðið er að draga úr skaðlegum afleiðingum og hættum.
Þegar kemur að þeim sem teljast aðhyllast skaðlega áfegnisneyslu telst einnig mikilvægt að veita fræðslu um þær afleiðingar sem geta fylgt neyslunni og hvernig er hægt að bregðast við þeim. Má þar nefna að fylgjast með steinefnum og söltum, lífsmörkum, drekka vatn, reyna að borða næringaríka fæðu og taka vítamín. Öll þessi atriði geta verið mikilvæg til að draga úr heilsufarsskaða.
Skaðaminnkun á næturklúbbum
Ýmis áhættuhegðun fyrirfinnst á næturlífi klúbba, skemmtistaða og tónlistahátíða. Má þar einkum nefna vímuefnanotkun á efnum líkt og alsælu, LSD, kókaíns og annarra sem eiga að hafa það hlutverk að auka skemmtanagildið. Skaðinn sem getur einna helst hlotist af þessum efnum er þegar efnin eru blönduð með einhverju sem hefur eituráhrif. Slík áhrif fara misjafnlega í einstaklinga sem má sjá í því að sumir komast í bráða lífshættu en aðrir ekki. Skaðaminnkun á þessum vettvangi hefur einkum beinst að því að boðið er uppá sannprófun á því að vímuefnið sem skal notað innihaldi ekki eiturefni. Einnig að bjóða uppá skaðaminnkandi fræðslu ásamt vatni og vítamín á vettvanginum.