Contact Us: 123.456.7890
- Félag um skaðaminnkun

Ýmsar greinar í fjölmiðlum
Sögulegt upphaf
Holland - Junkiebond
Upphaf þess að hugmyndafræði um skaðaminnkun fór að mótast má rekja til ársins 1981. Þá stofnaði heróínneytandi að nafni Nico Adriaans grasrótarhreyfinguna Junkiebond í Hollandi. Adriaans þótti heillandi, gáfaður og mælskur maður og naut hann virðingar fræðimanna, heilbrigðisstarfsfólks, vímuefnaneytenda og alls almennings. Hann stofnaði Junkiebond sem hagsmunasamtök um mannréttindi og heilsuvernd sprautunotenda. Allt frá stofnun samtakanna dreifðu þau hreinum sprautubúnaði til sprautunotenda, þá til forvarna gegn lifrarbólgu B. Junkiebond notfærðu sér fjölmiðla til þess að fræða um vímuefnaneyslu, þær hættur sem fylgja henni og hvernig hægt væri að draga úr þeim hættum fyrir vímuefnaneytendur og almenning. Junkiebond aðstoðuðu einnig rannsakendur á sviði vímuefnafræða við að öðlast dýpri skilning á áhættusamri og skaðlegri vímuefnaneyslu og hvernig mætti draga úr skaða hennar. Árið 1984 hófu Junkiebond samstarf við heilsugæslustöð (the municipal health service) í Amsterdam og komu þau á fót fyrstu nálaskiptaþjónustunni á vegum opinberrar heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan afhenti Junkiebond mikið magn af ónotuðum sprautubúnaði einu sinni í viku sem samtökin sáu um að dreifa til sprautunotenda. Árangurinn þótti jákvæður og nálaskiptaþjónusta á vegum hins opinbera jókst í kjölfarið. Á þeim tíma mátti einkum rekja aukninguna til forvarnarátaks hollenskra stjórnvalda til að hefta útbreiðslu HIV-smita meðal sprautunotenda og koma í veg fyrir smitfaraldur. Um miðjan níunda áratuginn kynntu hollensk stjórnvöld svo formlega skaðaminnkun í stefnumótun sinni í vímuefnamálum. Velgengi Junkiebond í að hafa áhrif á umhverfi sitt, stefnumótun stjórnvalda og svæðisbundnar aðgerðir þykir sýna mikilvægi þess að vímuefnaneytendur séu þátttakendur í að móta skaðaminnkandi nálganir.
Bretland - Mersey líkanið
Mikilvæg skref í þróun skaðaminnkunar voru tekin á níunda áratug síðustu aldar í Merseyside (Liverpool og nærliggjandi svæði), Bretlandi. Rótin að því var sú að heilbrigðisyfirvöld á svæðinu töldu áhyggjuefni hversu erfiðlega gekk að ná til sprautunotenda og að þeir nýttu sér ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurftu á að halda. Einnig var áhugi fyrir því að koma á forvörnum gegn því að HIV-smit hjá sprautunotendum myndu breiðast líkt og var farið að gerast á öðrum stöðum í Evrópu. Til að bregðast við þessu ákváðu heilbrigðisyfirvöld á Merseysvæðinu að setja á stofn heilbrigðisþjónustu sem hafði sprautunotendur sem markhóp. Með þjónustunni átti ekki einungis að ná til þeirra sem vildu hætta neyslu vímuefna heldur meirihluta þess hóps sem aðhylltist sprautuneyslu. Þessi afmarkaða heilbrigðisþjónusta hafði þrjú meginmarkmið; að ná tengslum við sprautunotendur á svæðinu, viðhalda sambandi og aðstoða þá við að breyta hegðun sinni og draga úr skaða.
Til þess að ná þessum markmiðum var komið á samstarfi milli heilbrigðisfagfólks, sérfræðinga, almennings, lögreglu og markhópsins. Í kjölfar þess var Mersey fræðslu- og upplýsingasetrið um vímuefnaneyslu (Mersey drug training and information center) opnað í Liverpool árið 1985. Í setrinu var leitast við að vera í samstarfi við sprautunotendur við að móta þær íhlutanir sem voru tileinkaðar þeim. Verklagið í setrinu var á þann hátt að gerðar voru litlar kröfur til skjólstæðingana, þeir voru ekki fordæmdir og leitast var við að koma til móts við þá á þeim stað sem þeir voru. Auk þess var auðvelt fyrir sprautunotendur að nálgast setrið, það var opið á tíma sem hentaði þeim og viðmót starfsfólksins einkenndist af virðingu og samkennd. Þjónusta sem boðið var uppá í setrinu var nálaskiptaþjónusta, heilsuverndarþjónusta, nærþjónusta, viðhaldsmeðferð og fræðsla. Fræðslan fólst einkum í upplýsingum um hvernig skuli forðast þær hættur sem tengjast vímuefnanotkun og neyta vímuefna á öruggari máta.
Þetta varð til þess að þar dró úr samnýtingu nála og ekki varð vart við HIV-smit á svæðinu. Sprautunotendur, sem heilbrigðisþjónustunni hafði gengið erfiðlega að ná til, fóru að nýta sér þjónustu setursins, líkamleg vandamál voru greind og þau meðhöndluð. Fyrir vikið urðu sprautunotendur á Merseyside-svæðinu heilsuhraustari og fróðari um þær hættur sem steðjuðu að þeim.